Íslenskur fjárfestahópur sem leiddur er af Magnúsi Þorsteinssyni, starfandi stjórnarformanni Avion Group, hefur fjárfest 30 milljónir Bandaríkjadala, eða tæpa tvo milljarða króna, í rússnesku prentsmiðjunni MDM Pechat á síðustu tveimur árum, samkvæmt upplýsingum frá rússnesku fjármálaeftirlitsstofnuninni Russina Financial Control Monitor (RFCM).

Verkefnið var sett í gang árið 2004 og var samstarfsverkefni Prentsmiðjunnar Odda og Edda Printing and Publishing Limited, en er nú leitt af Magnúsi Þorsteinssyni. Ekki náðist í Magnús þegar Viðskiptablaðið reyndi að ná tali af honum.

Prentsmiðjan Oddi er ekki lengur einn af eigendum prentsmiðjunnar en í byrjun átti félagið 20% hlut í eignarhaldsfélaginu, sem keypti rússnesku prentsmiðjuna. Oddi keypti rúmensku prentsmiðjuna Infopress fyrr á þessu ári, sem meðal annars prentar National Geographic, Readers Digest og Plabyboy til dreifingar í Suð-Austur Evrópu. Infopress er stærsta prentsmiðja Rúmeníu.

MDM-prentsmiðjan er eina prentsmiðjan í Rússlandi sem er í 100% eigu erlendra aðila og er sú þriðja stærsta í landinu. Helstu ástæður kaupanna á sínum tíma voru þær að prentmarkaðurinn í Rússlandi stendur á tímamótum, þar sem nágrannaríki eins og Finnland og Eystrasaltsríkin hafa í auknum mæli látið prenta efni í Rússlandi. Áætlaður vöxtur prentmarkaðarins í Rússlandi á næstu árum er á bilinu 20-30%.