*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 30. ágúst 2011 15:53

Íslendingar hafa litla þekkingu á eðli fjármála

Ráðstefna um fjármálalæsi verður haldin 9.september. Íslendingar hafa almennt litla þekkingu á hugtökum og eðli fjármála.

Ritstjórn
Nordic photos

„Fjármálablinda – þörf á framtíðarsýn“ er yfirskrift ráðstefnu um fjármálalæsi sem fram fer í Þjóðmenningarhúsinu, 9. september næstkomandi. Stofnun um fjármálalæsi, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins boða til ráðstefnunnar. Markhópur ráðstefnunnar eru allir þeir sem hafa hag af bættu fjármálalæsi almennings, s.s. stjórnvöld, samtök atvinnulífs, launþega, neytenda og fjármálakerfis. 

Niðurstöður rannsókna sýna að Íslendingar hafi almennt litla þekkingu á hugtökum og eðli fjármála. Skilningur á fjármálum er hins vegar mikilvæg forsenda þess að bæta lífskjör í samfélaginu, stuðla að upplýstri umræðu og ákvörðunum og búa í haginn fyrir fjárhagslegt öryggi til framtíðar af því er fram kemur í frétt Efnahags- og viðskiptráðuneytisins. 

Á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni er dr. Adele Atkinson, einn helsti sérfræðingur heims um fjármálalæsi, en hún vinnur við rannsóknir og stefnumótun á fjármálalæsi hjá OECD. Hún er menntuð í hagfræði og endurskoðun og hefur doktorsgráðu í fjármálalæsi frá Háskólanum í Bristol. Adele hefur í ellefu ár stundað empirískar rannsóknir á fjármálum einstaklinga, menntun og stefnumótun í fjármálalæsi, og eftir hana hafa verið birtar yfir 30 greinar í ritrýndum tímaritum.