Íslensku eigendur breska knattspyrnufélagsins Stoke City munu hafna sjö milljón punda kauptilboði í klúbbinn, sem samsvarar rúmlega 935 milljónum íslenskra króna, segir í frétt blaðsins The Sentinel.

Blaðið hefur eftir Gunnari Gíslasyni, stjórnarformanni Stoke, að kauptilboðið frá Peter Coates, sem er fyrrverandi stjórnarformaður félagsins, endurspegli ekki raunvirði knattspyrnufélagsins.

Kauptilboð Coates í Stoke-knattspyrnuklúbbinn er önnur tilraun hans til að kaupa félagið á síðustu mánuðum.

Coates sagðist ekki hafa heyrt frá Íslendingunum í samtali við blaðamann The Sentinel, en bjóst við að þeir hefðu samband fljótlega eftir páska.