Íslenska fyrirtækið Wine Holding hefur keypt allt hlutafé í lettneska áfengissölufyrirtækinu  JSC Interbaltija AG shares, að því er fram kemur á fréttavefnum BBN. Stefni Wine Holding að því að verða stærsta fyrirtæki á sínu sviði í Lettlandi ásamt því að færa út kvíarnar í Eistlandi og Litháen.

Kaupverðið fæst ekki uppgefið. Interbaltija AG er stofnað árið 1991 og er í hópi virtustu fyrirtækja á sínu sviði í Lettlandi. Flytur það einkum inn svokölluð eðalvín og þekkt vörumerki á borð við Hennessy-koníak og Moet & Chandon kampavín. Er það í samstarfi við 350 veitingastaði, skemmtistaði og verslanir í Lettlandi, að því er fram kemur í fréttinni.

Fyrrum eigandi félagsins, Laimonis Kravalis, segir að nýir eigendur hyggist einbeita sér áfram að þekktum vörumerkjum. Mikil samkeppni sé á þessum markaði í Lettlandi og neytendur verði sífellt kröfuharðari varðandi gæði þess áfengis sem þeir drekka. Þess er látið ógetið í fréttinni hvaða íslenski aðili stendur að baki Wine Holding.