Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar og Auðhumlu, segir mikilvægt að viðhalda stöðugri vöruþróun í mjólkuriðnaðinum til að viðhalda eftirspurninni. „Það skiptir miklu máli fyrir bændur og þetta hefur meðal annars átt þátt í að við höfum haldið vel sjó í gegnum hrunið og efnahagsþrengingarnar.“

Einar segir minni samdrátt hafa orðið í sölu á mjólkurvörum en á annarri dagvöru og það sé þrennt sem valdi því. „Í fyrsta lagi að Íslendingar eru mjólkurþjóð. Í öðru lagi er það svo þessi vöruþróun, það eru alltaf einhverjar nýjungar á ferðinni og við reynum að halda markaðnum vakandi fyrir því sem við erum að gera. Svo skiptir mjög miklu máli að verðið er sanngjarnt og hagstætt.“

Einar bendir á að ein dós á skyri dugi í matinn fyrir þrjá og sé hagkvæmur kostur. „Íslendingar nota mjög mikið mjólkurprótein til að halda sér gangandi og við deilum fyrsta sætinu með Finnum í heiminum í mjólkurneyslu á mann.“