Samkvæmt könnun Gallup eru Íslendingar hlynntari viðskiptaþvinganaaðgerðum Sameinuðu þjóðanna en heimsmeðaltal segir til um. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn samtakanna.

Þá var spurt um hvort viðkomandi væri fylgjandi viðskiptabanni SÞ í eftirfarandi tilfellum:

  • Ef land tekur þátt í þjóðarmorðum eða kerfisbundnum drápum á ákveðnum hópi í eigin landi
  • Ef land styður hryðjuverkahópa fjárhagslega
  • Ef land brýtur sáttmála um bann við útbreiðslu kjarnavopna eða kemur í veg fyrir eftirlit með kjarnavopnum
  • Ef land ræðst að fyrra bragði með hervaldi á annað land
  • Ef land steypir lýðræðislega kjörinni stjórn af stóli
  • Ef land brýtur sáttmála um umhverfisvernd

Í spurningunni um þjóðarmorð voru 69% aðspurðra Íslendinga fylgjandi viðskiptaþvingunum, en þar af voru 61% mjög hlynntir meðan 8% voru hlynntir. Í spurningunum um hryðjuverkahópa voru 64% hlynntir. Þegar kom að kjarnavopnunum voru þó 70% fylgjandi, en þar af voru 50% mjög hlynntir og 20% hlynntir.

Meðaltal íslenskra svarenda hljóðaði svo að 63% væru mjög hlynntir eða hlynntir viðskiptaþvingunum gagnvart löndum sem gerðu fyrrnefnda hluti, meðan heimsmeðaltal þeirra sem voru fylgjandi nam 59%. Þó má nefna að hlutfall þeirra sem sögðust mjög hlynntir var 13% hærra meðal Íslendinga.