Íslenskir tónlistarútgefendur munu að sögn fréttabréfs Útflutningsráðs fjölmenna á kaupstefnuna í Midem sem fram fer í Cannes í Frakklandi 22.?26. janúar nk. Midem er stærsta kaupstefna tónlistargeirans og er þetta í fertugasta skiptið sem hún er haldin.

Nokkrir íslenskir aðilar hafa sótt kaupstefnuna reglulega í vel á annan áratug en undanfarin tvö ár hefur Útflutningsráð skipulagt sameiginlega þátttöku á íslensku sýningarsvæði undir slagorðinu Hear Iceland!. Slíkt hið sama er gert í ár og aldrei hafa fleiri fyrirtæki frá Íslandi tekið þátt í kaupstefnunni en alls eru skráðir 23 fulltrúar frá 15 fyrirtækjum og fernum félagasamtökum.

Íslenski sýningarbásinn og kynningarefni er hannað af 2121 Culture Company sem jafnframt er þátttakandi í kaupstefnunni. Önnur fyrirtæki sem halda til Cannes eru 12 Tónar, Believer, Concert, Plan B, Dagur Group, Dimma, Geimsteinn, Íslensk tónverkamiðstöð, Musik, My Pocket Productions, Reykjavík Records, River of Light Records, Smekkleysa SM og Sound Factory. Ásamt fyrirtækjunum verða fulltrúar frá Samtóni, STEF, FÍH og TÍ.