Franska kvikmyndahátíðin hefst á morgun í fimmtánda sinn en hún mun standa til 2. febrúar í Háskólabíói og til 1. febrúar í Borgarbíói á Akureyri. Hátíðin, sem er annar stærsti kvikmyndaviðburður á Íslandi, er haldin á vegum Alliance Française í Reykjavík, sendiráðs Frakklands og Kanada á Íslandi og Græna ljóssins. Samkvæmt aðstandendum hátíðarinnar sækja að jafnaði um 10.000 gestir hátíðina og ekki er gert ráð fyrir að sú aðsókn fari minnkandi í ár.

Viðeigandi þema í kjölfar hryðjuverkaárása

Þema hátíðarinnar þetta árið er fjölbreytni en það er óhætt að segja að það eigi sérstaklega vel við eftir skotárasina á skrifstofur skoptímaritsins Charlie Hedbo í Frakklandi.

Pálmi Jóhannesson, upplýsingafulltrúi franska sendiráðsins, segir hins vegar að þemað hafi verið ákveðið löngu áður. „Það var búið að ákveða fyrir löngu að sýna þessar myndir og að áhersla yrði lögð á fjölbreytni þannig að það er hrein og bein tilviljun að þetta hafi borið upp rétt á eftir voðaverkunum í París.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .