Stóru ferðaskrifstofurnar hafa allar bætt við framboð á sætum í sólarlandaferðir í ár miðað í fyrra. Nemur aukningin um 30% hjá Vita, 10% hjá Heimsferðum og er einnig aukning hjá Úrval Útsýn. Þetta kemur fram á ferðavefnum Túristi.is.

Þar segir enn fremur að minna sé nú um að Íslendingar sækist eftir hóteli með fullu fæði. Er skýringin rakin til þess að gengi íslensku krónunnar er nú stöðugra og hagstæðara en áður. Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða segir að fólk sé einnig farið að bóka dýrari gistingu en áður. Vinsælasti staðurinn er Krít þegar kemur að sólarlandaferðum.