Tölvunarfræðingurinn Guðmundur Ásmundsson missti vinnunna, spariféð og sjálfstraustið í hruninu 2008. Hann hefur ákveðið að flytja til Noregs ásamt fjölskyldu sinni. Í viðtali við norska blaðið DN segja hjónin að þau ætli ekki að snúa aftur til Íslands.

Guðmundur og eiginkona hans, Jacqueline Michelle Becker, segja að stjórnkerfið á Íslandi hafi verið í ólagi löngu fyrir fall bankanna 2008. Jacqueline starfar sem sérfræðingur í bakvinnslu hjá Vodafone og missti ekki vinnuna líkt og Guðmundur. Hún segir þó að ástandið sé ólíðandi og því hafi þau ákveðið að flytja til Noregs. Fjölskyldan hafði keypt sér fasteign árið 2005 fyrir 46 milljónir króna og eigið fé, um 10 milljónir króna, séu nú horfnar.

Í grein DN er rætt við hjónin og fjallað um þá fjölmörgu Íslendinga sem flutt hafa frá landinu eftir hrun. Um 4340 Íslendingar fluttu af landi brott í fyrra, þar af 1539 til Noregs.

Viðtalið má lesa hér .