Sigurjón Sighvatsson og Björn Steinbekk Kristjánsson, ásamt íslenskum fjárfestum, hafa tryggt dreifingu á nýrri sjónvarpsstöð, Big TV, í Skandinavíu. Stöðin mun sérhæfa sig í framleiðslu sjónvarpsefnis fyrir aldurshópinn 12 til 25 ára. Útsendingar hefjast í Finnlandi en áformað er að ná til 8 milljón heimila í Skandinavíu fyrir árslok 2006. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður 750 milljónir króna. Framkvæmdastjóri Big TV verður fyrrum yfirmaður markaðs- og sölumála EMI í Skandinavíu.

Í tilkynningu frá þeim félögum kemur fram að Finnland verður upphafspunktur þessarar nýju útrásar Íslendinga á sjónvarpsmarkaði, en þar var gengið frá dreifingu Big TV til 1,2 milljóna heimila í gegnum 8 stærstu kapalfyrirtækin á finnska sjónvarpsmarkaðnum. Heildarfjöldi heimila í Finnlandi, sem ná sjónvarpssendingum, er 2,4 milljónir. Samningurinn gerir ráð fyrir að í lok árs 2006 verði Big TV komið inn á tæplega 1,7 milljónir heimila í Finnlandi.

Ennfremur hefur verið gengið frá samkomulagi við Canal Digital, dótturfélag símafyrirtækisins Telenor í Noregi. Sá samningur mun tryggja Big TV dreifingu inn á 500 þúsund heimili þar í landi strax í upphafi. Til viðbótar er unnið að samningi sem tryggir viðbótar dreifingu í Noregi upp á 700 þúsund heimili.

Ætla að ná til 8 milljón heimila

Samtals búa rúmlega 24 milljónir manna í þeim fjórum löndum Skandinavíu sem Big TV stefnir á útsendingar í, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Heildafjöldi heimila, með aðgang að sjónvarpsútsendingum, er 10,8 milljónir. Þar af stefnir Big TV á að ná inn á rúmlega 8 milljónir heimila í árslok 2006 í samvinnu við ýmsa dreifingaraðila.

Heildarkostnaðurinn við þetta verkefni er áætlaður 750.000.000 króna á fimm árum. Fjármögnun upphafskostnaðar vegna stöðvarinnar í Finnlandi hefur verið tryggð. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins verður Clas Dahlen, fyrrum yfirmaður markaðs- og sölumála útgáfufyrirtækisins EMI í Skandinavíu.

Big TV mun einnig verða fyrsta sjónvarpsstöðin í Evrópu, ef ekki heiminum, til að senda út samtímis í sjónvarpi, á Internetinu og í útvarpi. Samstarfssamningar við eina af tveimur stærstu einkareknu útvarpsstöðvum Skandinavíu eru á teikniborðinu ásamt því að hafinn er undibúningur að umsóknum um útvarpsleyfi í þeim löndum sem Big TV mun starfa í.

Samfara þeirri vinnu sem unnin hefur verið síðustu misseri í Skandinavíu hefur verið ákveðið að setja af stað vinnu við uppsetningu og dreifingu á Big TV í austur og suðaustur Evrópu. Eftir inngöngu, og undirbúning fyrir inngöngu, landa í þeim hluta Evrópu í Evrópusambandið eru að opnast miklir möguleikar fyrir sjónvarp, sérsniðið að þörfum og áhugamálum ungs folks.