Sendiherra Íslands í Moskvu, Benedikt Jónsson, skrifaði í dag undir samstarfssamning við Alþjóðalánastofnunina, sem er hluti af Alþjóðabankanum, um úttekt á viðskiptatækifærum í sjávarútvegi í Rússlandi. Fjögur íslensk fyrirtæki, Landsbankinn, Marel, Ísfell og Sæplast, koma að verkefninu auk utanríkisráðuneytisins, sjávarútvegsráðuneytisins og Útflutningsráðs Íslands.

Verkefnið í Rússlandi er fyrsta samstarfsverkefni íslenskra stjórnvalda og
einkafyrirtækja á Íslandi við Alþjóðalánastofnunina (International Finance
Corporation - IFC) af þessu tagi og því er um tilraun að ræða. Vonir standa til þess að með verkefninu verði hægt að afla upplýsinga, gagna og tengsla í því skyni að byggja upp frekari viðskipti í Rússlandi, sem að öðru jöfnu gæti reynst illmögulegt fyrir einstök fyrirtæki á Íslandi á eigin vegum.

Í Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins, kemur fram að markmiðið að auka fjárfestingar og viðskipti Framkvæmdastjóri IFC fyrir Mið- og Austur- Evrópu, Edward Nassim, undirritaði samninginn fyrir hönd Alþjóðabankans, en IFC starfar með einkafyrirtækjum á áhættusömum mörkuðum þar sem erfitt getur reynst að fjármagna viðskipti á hefðbundinn hátt. Utanríkisráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið eru bæði aðilar að samningnum við IFC, en auk þess koma að fjármögnun verkefnisins íslensk fyrirtæki sem öll hafa lagt sig fram við að skoða viðskiptatækifæri í Rússlandi.

Verkefnið fellur undir svokallaða PEP-áætlun (Private Enterprise Partnership) á vegum IFC sem stofnað var árið 2000 fyrir fyrrum aðildarríki
Sovétríkjanna í því augnamiði að aðstoða yfirvöld og einkafyrirtæki við að:
? auka beinar fjárfestingar í löndunum,
? stuðla að vexti lítilla og meðalstórra
fyritækja, og
? bæta viðskiptaumhverfi landanna.

Mikil vaxtartækifæri en umhverfið flókið ?Samskipti Íslands og Rússlands á sviði sjávarútvegs eiga sér langa sögu. Þær miklu breytingar sem hafa átt
sér stað í efnahagsmálum Rússlands á undanförnum misserum hafa vakið áhuga íslenskra viðskiptaaðila á sviði sjávarútvegs og fiskiðnaðar enda hafa þeir löngum verið meðvitaðir um þá miklu möguleika sem í boði eru. Hinsvegar hefur flókið umhverfi og skortur á upplýsingum, sem snerta núverandi stöðu sjávarútvegsmála í Rússlandi og framtíðarhorfur
greinarinnar, verið hindrun í vegi uppbyggingar frekari viðskipta íslenskra aðila á þessu sviði. Það er því mjög ánægjulegt og hvetjandi að íslensk stjórnvöld og einkafyrirtæki hafi nú tekið höndum saman við IFC um að gera úttekt á fiskiðnaðinum í Rússlandi?, segir Benedikt Jónsson, sendiherra Íslands í Moskvu í samtali við Stiklur, vefrit viðskiptastofu utanríkisráðuneytisins.

Edward Nassim, framkvæmdastjóri IFC tekur í sama streng. ?Það eru stór tækifæri í rússneskum fiskiðnaði. Hinsvegar er í raun mjög lítið vitað um umfang fiskiðnaðarins í Rússlandi og við vonumst til að þessi úttekt komi til með að gefa gagnleg svör við mörgum spurningum og leggi þannig grunninn að því að unnt verði að skapa ný viðskiptatækifæri.?

Framhald af rammasamningi Rússlands og Íslands um sjávarútvegsmál
Fyrir fjórum árum var undirritaður rammasamningur milli Íslands og Rússlands um sjávarútvegsmál þar sem ríkin tvö skuldbundu sig meðal annars til að greiða fyrir samstarfi einkaaðila frá báðum ríkjum á
sviði veiða, vinnslu og markaðssetningar sjávarafurða.

Ekki hefur hins vegar tekist að nýta samninginn, eins og vonir stóðu til, til þess að auka viðskipti landanna á sviði sjávarútvegs. Með PEP-áætluninni er m.a. gerð tilraun til þess að efla þessi viðskiptatengsl og skoða með markvissum hætti tækifæri sjávarútvegsins og tengdra greina í Rússlandi. Aðkoma IFC felst í framlagi stofnunarinnar sem er um 25% af kostnaði verkefnisins nær m.a. yfir kostnað við almenna umsjón, vinnu við þróun,
uppsetningu og eftirlit með framkvæmd verkefnisins og við úttekt og mat á verkefninu sjálfu. Kostnaður við ráðningu og vinnu utanaðkomandi sérfræðinga og ráðgjafa er greiddur af íslensku aðilunum. Í úttektinni
verður m.a. farið yfir reglu- og lagaramma sjávarútvegsins í Rússlandi sem tekið hefur miklum breytingum á undanförnum misserum.