Hópur íslenskra fjárfesta hefur samið um kaup á dönsku stórvöruversluninni Illums, sem stendur við götuna Strikið í Kaupmannahöfn, segir í frétt danska blaðsins Berlinske Tidende. Einnig var sagt frá kaupunum í kvöldfréttum Sjónvarpsins.

Baugur er einn af fjárfestunum og sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga fyrirtækisins á Norðurlöndum, að fjárfestarnir ætli sér ekki að gera miklar breytingar á rekstrinum og að verslunarhúsið verði áfram rekið í miðborg Kaupmannahafnar.

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp. Á fréttavef Ríkisútvarpsins segir að Illums hafi verið rekið með tapi í ?mörg ár" en að hagnaður hafi verið af rekstri félagsins í fyrra.