Íslenskir fjárfestar, þeir Ólafur Örn Karlsson og Gunnar Björn Hinz, hafa fest kaup á Toraco Finmekanik. Um er að ræða danskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu málmhluta fyrir ýmis konar iðnað. Að mestu eru framleiddir flóknir og fíngerðir málmhlutir fyrir viðskiptavini sem framleiða til að mynda tannlæknastóla, öndunarvélar, gasloka og ýmis konar vökvakerfi, að því er segir í fréttatilkynningu frá VBS fjárfestingarbanka.

Toraco Finmekanik er staðsett í Lundby í Danmörku. Fyrirtækið hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá því það hóf starfsemi árið 1956. Hjá fyrirtækinu starfa 14 manns á vöktum allan sólarhringinn.

VBS fjárfestingarbanki hf. hafði milligöngu um kaupin og sá um samninga við Danske Bank sem fjármagnaði kaupin. Kaupverðið er trúnaðarmál.