Hópur íslenskra fjárfesta hefur keypt 69% hlutafjár í danska hlutafélaginu TH. Wessel & Vett A/S Magasin Du Nord (Magasin) sem er skráð í dönsku kauphöllinni. Heildarkaupverð er um 4,8 milljarðar króna og mun Straumur Fjárfestingarbanki, sem hefur leitt samningaviðræður við seljendur ásamt HSH Gudme Bank, annast fjármögnun kaupanna með öðrum. Aðrir fjárfestar eru Baugur Group hf. og Birgir Þór Bieltvedt.

Í frétt frá Straumi Fjárfestingarbanka um viðskiptin kemur fram að fjárfestarnir munu stofna félag sem mun eiga þennan eignarhlut og mun Straumur Fjárfestingarbanki hf. eiga 33% eignarhlut í því félagi, Baugur Group hf. 42% og B2B Holding ehf., eignarhaldsfélag í eigu Birgir Þ. Bieltvedt, 25%. Hugsanlegt er að aðrir fjárfestar muni koma að félaginu síðar. Hið óstofnaða félag sem mun eiga eignarhlutinn mun gera öðrum hluthöfum í Magasin yfirtökutilboð sem mun verða birt í dönsku kauphöllinni á næstu 4 vikum í samræmi við ákvæði danskra verðbréfaviðskiptalaga um yfirtökutilboð. Stefnt er að því að afskrá félagið úr dönsku kauphöllinni í kjölfar yfirtöku. Ekki er fyrirhugað að gera breytingar á yfirstjórn Magasin en forstjóri þess, Peter Husum, hóf störf hjá fyrirtækinu þann 1. nóvember 2004. Á hinn bóginn mun verða boðað til hluthafafundar í Magasin á næstu dögum þar sem lögð verður fram tillaga um kosningu nýrrar stjórnar.

Magasin var stofnað árið 1868 og rekur nú 8 deildarskiptar stórverslanir, sú þekktasta á Kóngsins Nýjatorg í hjarta Kaupmannahafnar en einnig eru verslanir í Álaborg, Óðinsvéum og Árhúsum og er velta þeirra samtals um 30 milljarðar íslenskra króna.