Hópur íslenskra fjárfesta hefur fest kaup á meirihluta hlutafjár pólska sjávarréttaframleiðandans, Proryb.

Fjárfestingahópurinn samanstendur af, Guðjóni Davíðssyni, Guðmundi Stefánssyni, Jóni Rúnari Halldórssyni og Sigurði Péturssyni. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Proryb er eitt elsta einkafyrirtækið í framleiðslu sjávarfangs í Póllandi og var stofnað af Zygmunt Dyzmanski og fjölskyldu hans árið 1972.

Eiginkona hans Bozena Maria Dyzmanska mun áfram eiga hlut í félaginu og starfa áfram í framkvæmdastjórn þess auk Guðmundar Stefánssonar sem mun gegna stöðu framkvæmdastjóra og Sigurðar Péturssonar meðstjórnenda.

Proryb er með tæplega 300 starfsmenn og hefur breiða vörulínu kældra sjávarafurða þar með talið; reyktar, marineraðar og saltaðar vörur, salöt, smurréttir og ýmsar tilbúnir réttir.