Baugur Group hefur í samstarfi við aðra fjárfesta keypt MK One verslunarkeðjuna í Bretlandi. Kaupverðið er um 7 milljarðar króna. Aðrir fjárfestar eru Landsbankinn, sem mun eiga 36% hlutafjár, og nýir stjórnendur félagsins. MK One rekur 176 verslanir um allt Bretland og selur tískufatnað og fylgihluti fyrir aldurshópana 7-14 ára og 18-35 ára. Markmið félagsins er að selja tískufatnað á lægra verði en almennt gerist og hefur MK One sterka stöðu á þeim hluta markaðarins.

Í fréttatilkynningu kemur fram að þessi hluti markaðarins vaxi þrisvar sinnum hraðar en tískugeirinn almennt og er því spáð að svo verði áfram.

Velta MK One hefur aukist um 22% á undanförnum tveimur árum og er nú um 17,5 milljarðar króna. Á sama tíma hefur EBITDA framlegð aukist úr 1,1 milljarði í 1,9 milljarða króna (72%). Reiknað er með að opna um 50 nýjar verslanir í Bretlandi á næstu tveimur til þremur árum. Framkvæmdastjóri MK One verður Les Johnston, fyrrum stjórnandi hjá Debenhams, og nýr fjármálastjóri er Andy Hall, en hann var áður fjármálastjóri Blacks Leisure.

Fjallað hefur verið um kaupin í breskum fjölmiðlum undanfarna daga og er almennt farið yfir umsvif Baugs í Bretlandi. Segist The Times hafa heimildir fyrir því að MK One verði ekki sameinað öðrum tískuvörumerkjum Baugs, sem starfi saman undir merki Mosaic. Hins vegar er talið að Baugur hyggist skrá Mosaic innan tveggja ára.