Fáir þekkja einkahlutafélagið S4S en flestir, ef ekki allir, þekkja vörumerki þess. Meðal þeirra er hin þekkta verslun Steinar Waage, Kaupfélagið og Ecco en nýjasta afurð S4S, samkvæmt forstjóranum, er netverslunin Skór.is. „Netverslunin er búin að ganga mjög vel, en þetta er annað árið í rekstri þess og við erum nú þegar búnir að tvöfalda söluna á milli ára. Við erum komnir með 60 milljónir í sölu á síðasta ári og erum að stefna á 100 milljónir á þessu ári,“ segir Pétur Þór Halldórsson eigandi S4S.

Innan fyrirtækisins eru reknar tíu mismunandi skóverslanir en margt er á döfinni hjá þessu rótgróna félagi. Til viðbótar við netverslun þeirra er von á nýrri verslun á á þessu ári. „Við erum aðeins að færa okkur á nýjar slóðir í apríl þar sem við erum að fara að opna Nike Concept búð í Smáralind. Það verður svolítið af fatnaði í henni sem er algjörlega nýr vinkill hjá okkur,“ segir Pétur

Það fer ekki á milli mála að rekstur fata- og skóverslana getur verið erfiður á Íslandi í gjaldeyrishöftum og erfiðu tollaumhverfi en Pétur segir að með stöðugum og traustum rekstri fyrirtækisins til lengri tíma hafi það staðið af sér flesta þá efnahagslegu erfiðleika sem þjóðin hefur gengið í gegnum upp á síðkastið. Þótt margir Íslendingar kjósi að kaupa fatnað erlendis finnur Pétur ekki fyrir teljandi áhrifum vegna þess. „Það sem er kannski öðruvísi í skóbransanum samanborið við fatabransann er að skósala fer mjög mikið fram á Íslandi. Okkur hefur tekist að vera mjög samkeppnishæfir í verði í flestum þeirra merkja sem við flytjum inn. Ástæðan er fyrst og fremst fólgin í því að við semjum beint við framleiðendur og birgja þessara helstu merkja á borð við t.d. Ecco og Lloyd. Sérstaklega með tilkomu netverslunarinnar finnum við fyrir því að samkeppni okkar er að mörgu leyti við aðrar erlendar netverslanir. Þá höfum við notið góðs af því að margar merkjavörur sem við seljum eru ekki dýrar á Íslandi og jafnvel ódýrari en annars staðar í mörgum tilvikum,“ segir Pétur.

Nýlega hefur borið á því að hægt sé að flytja inn eftirlíkingar á þekktum merkjavörum í gegnum kínverskar vefverslanir. Spurður að því hvort hann finni fyrir áhrifum þeirra í rekstri verslana S4S segist Pétur vissulega fylgjast með þeirri þróun. „Við finnum fyrir þessum eftirlíkingum en aðallega í íþróttavörumerkjum eins og Nike og aðeins í Converse. Við erum hins vegar ekki að finna fyrir þeim í merkjum á borð við Ecco og Lloyd en það er erfiðara að falsa þau. Við sjáum líka að fólk kaupir þessar eftirlíkingar einu sinni eða tvisvar og síðan aldrei aftur. Þú færð náttúrlega það sem þú borgar fyrir

Viðtalið við Pétur Þór Halldórsson birtist í blaðinu 462 framúrskarandi fyrirtæki sem dreift verður með Viðskiptablaðinu á morgun. Þar er fjallað um þau fyrirtæki sem stóðust styrkleikamat Creditinfo og komust í hóp framúrskarandi fyrirtækja.