Fyrirtæki í eigu Íslendinga hafa eignast lettneska sorpeyðingarfyrirtækið SIA Eko Kurzeme og stefna nýir eigendur að því að yfirtaka einnig fyrirtæki í sömu grein í Riga, Jurmala og  Talsi, að því er fréttavefurinn BBN greinir frá í morgun.

Ekki er tilgreint hverjir Íslendingarnar eru en í fréttinni er vitnað í stjórnarmann Eko Kurzeme, Kristine Lomanovska, sem kveðst sannfærð um að með nýju eignarhaldi verði róttækar breytingar gerðar á sorphirðu á svæðinu. Þá er rætt við fyrrum hluthafa, Aloizs Norkus, sem segir rekstur fyrirtækisins hafa verið arðbæran en hann hafi kosið að losa sig úr rekstrinum og einbeita sér að öðru því að mikla fjárfestingu þurfi í greininni. Nýir eigendur séu tilbúnir til að leggja þær af mörkum.