Friðrik Ingi Friðriksson, eigandi Aflvéla og Burstagerðarinnar, hefur ásamt fjölskyldu sinni og með liðsinni íslenska félagsins Behrens Corporate Finance keypt efnaverksmiðjuna Spodriba í Lettlandi. Um er að ræða stærstu heimilsefnaversmiðju Balkanlanda að sögn Friðriks.

"Það var Behrens sem vakti athygli okkar á þessu, en þeir seldu fyrir okkur fyrirtækið Besta í ágúst á síðasta ári," segir Friðrik. Hann er því ekki ókunnugur heimilisefnamarkaðinum og var reyndar á árum áður framkvæmdastjóri Friggjar. Þá situr hann í stjórn alþjóðasamtaka hreinsiefnaframleiðenda, International Sanitary Supply Association, sem um 4.600 hreinsiefnaframleiðendur víðs vegar um heiminn eiga aðild að.

Á löngum lista yfir fjölbreytilega framleiðslu Spodriba eru meðal annars sápa, sjampó, húðkrem, uppþvottalögur, skóáburður, blómaáburður, gólfbón, grillvökvi, kælivökvi fyrir bifreiðar og hvers kyns hreinsiefni.

Verksmiðjan verður 85 ára á þessu ári og lék stórt hlutverk í gömlu Sovétríkjunum: "Hún framleiddi á árum áður langt yfir helming af öllum heimilisefnavörum fyrir Sovétríkin og þarna voru um 600 manns í vinnu um tíma," segir Friðrik. Í dag eru starfsmenn hins vegar liðlega 100 og verksmiðjan framleiðir næstum eingöngu fyrir heimamarkað, að sögn Friðriks.

"Við sjáum því gríðarlega möguleika í þessu verkefni. Þeir hafa aðallega hugsað um heimamarkaðinn og smávöruverslun. Við sjáum möguleika í iðnaðarmarkaði, en þó fyrst og fremst í útflutningi. Framleiðslan er samkvæmt Evrópustaðli, með ISO-vottun bæði varðandi umhverfis- og gæðastaðla, og fullnægir einnig öllum stöðlum í Rússlandi. Auk þess eru þetta að hluta til vörumerki sem Rússar þekkja frá gamalli tíð. Við gerum ráð fyrir að horfa fyrst til Balkanlandanna, Rússlands og jafnvel Úkraínu og Hvíta-Rússlands, en undirbúum síðan sókn inn í hin Evrópulöndin."

Spodriba framleiðir afurðirnar alveg frá grunni og meira að segja brúsana og áltúburnar utan um þær líka, segir Friðrik, sem hefur tekið við sem stjórnarformaður verksmiðjunnar.

Verksmiðjan er í bænum Dobele, sem er um klukkustundar akstur frá Riga. Þar á fyrirtækið um það bil fjögurra hektara land á besta stað í miðbænum. Friðrik telur ákveðna möguleika felast í því ef lóðaverð hækkar.

Árið 2004 var velta fyrirtækisins 826 þúsund evrur, eða liðlega 77 milljónir króna, en hagnaðurinn var lítill sem enginn samkvæmt frétt frá Baltic Business Weekly. Tölur fyrir 2005 liggja ekki fyrir eftir því sem næst verður komist. Kaupverð verksmiðjunnar er ekki gefið upp, en Friðrik segir að þetta sé "eitthvert mest spennandi verkefni sem maður hefur séð lengi."

Hann segist ekki stefna að því í bili að flytja til Lettlands, en um þessar mundir er verið að ganga frá samningi við nýjan framkvæmdastjóra, sem er Letti.