„Það er örugglega ekki nýtt að vogunarsjóðir gangi markvisst fram í því að beita sér gegn tiltekinni mynt. Þeir stunda það og það leikur enginn vafi á því að þeir hafa um hríð beint sjónum sínum að Íslandi,” segir Poul Nyrup Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur við danska blaðið Information.

Þar segir hann að á fyrstu starfsdögum sínum forsætisráðherra Danmerkur hafi hann upplifað hvernig vogunarsjóðir hafi beitt sér gegn Danmörku til þess að fella gengi dönsku krónunnar og græða á því.

Poul Nyrup bendir hins vegar á í samtali við Information að með mjög örum, lánsfjármögnuðum vexti hafi Íslendingar að vissu leyti gefið spákaupmönnum skotfæri á sér.

„En það er auðvitað ekki eðlilegt að það eigi að vera vogunarsjóðir sem komi ríki aftur á rétta leið. Það er hlutverk lýðræðisins. Íslendingar verða að kjósa sér nýja ríkisstjórn sem getur haldið utan um efnahagsmálin,” segir Nyrup.   Poul Nyrup hefur á undanförnum misserum harðlega gagnrýnt starfsemi fjárfestinga- og vogunarsjóða og skort á upplýsingum um starfsemi þeirra og skrifaði bókina Á tímum græðginnar um það efni en hún kom út í fyrrahaust á bæði dönsku og ensku.

Poul Nyrup er formaður samtaka evrópskra jafnaðarmanna og stýrir samvinnu sem tekist hefur að koma á milli evrópskra jafnaðarmanna og demókratanna vestra varðandi starfsemi fjárfestingasjóða.