Farþegar sem kaupa sér brottfararmiða frá Íslandi eru nú einungis 15% af viðskiptavinum Icelandair. Ástæðuna má rekja til fjölgunar á öðrum farþegum, einkum þeim sem millilenda á Íslandi.

Í kynningu á árshlutauppgjöri Icelandair Group fyrir annan ársfjórðung kemur fram að tengifarþegar séu orðnir 52% af heildarfarþegafjölda félagsins og að þeir sem sæki landið heim séu 33% farþega. Fyrir vikið eru þeir sem kaupa sér brottfararmiða, sem að meginstefnu til eru Íslendingar á leið til útlanda, einungis 15%. Á sama fjórðungi árið 2014 voru tengifarþegar 49% af heildinni, komufarþegar 34% og brottfararfarþegar 17%.

Uppgjör félagsins fyrir annan ársfjórðung var kynnt í gær, en félagið hagnaðist um 22,4 milljónir dala á fjórðungnum og endurskoðaði afkomuspá sína vegna betra gengis en spáð hafði verið. Verð á bréfum félagsins hækkaði um 2,37% í Kauphöllinni í dag og hefur ekki verið hærra frá því fyrir hrun.