Íbúar á landinu öllu voru ríflega 293 þúsund 1. desember síðastliðinn og hafði þeim þá fjölgað um 0,95% á einu ári samkvæmt tölum sem Hagsofa Íslands birti í morgun. Fjölgun þessi er viðlíka þeirri sem verið hefur að meðaltali síðastliðin tíu ár. Haldist þessi fjölgun næstu árin verður þjóðin komin yfir 300 þúsund eftir þrjú ár eða árið 2007.

Fjölgunin hefur verið mikil á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu og jókst íbúafjöldinn þar um 1,15% á milli áranna 2003 og 2004. Íbúafjöldinn þar nam tæplega 184 þúsund 1. desember síðastliðinn og búa því tæplega 63% landsmanna á þessum landshluta. Fyrir tíu árum var hlutdeild höfuðborgarsvæðisins tæplega 59%. Ef vöxtur íbúa á höfuðborgarsvæðinu verður jafn mikill næstu árin og á síðustu tíu árum munu íbúar á höfuðborgarsvæðinu ná 200 þúsund árið 2010 eins og bent er á í Morgunkorni Íslandsbanka.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.