Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup eru Bretar nú sú þjóð sem Íslendingum er verst við. Bandaríkjamenn eru í öðru sæti listans á eftir Bretum.

64% aðspurðra hjá Gallup voru neikvæðir í garð Breta og aðeins 17% jákvæðir. Árið 2001 spurði Gallup sömu spurningar og þá reyndust 85% Íslendinga jákvæðir í garð Breta.

44% Íslendinga eru neikvæðir í garð Bandaríkjamanna og 22% jákvæðir. Árið 2001 voru 76% Íslendinga jákvæðir í garð Bandaríkjamanna.

Þá er fimmtungur íslensku þjóðarinnar neikvæður í garð Dana, sem og Rússa. Vinsældir Dana hafa því hrapað en árið 2001 voru 90% Íslendinga jákvæðir í þeirra garð en nú eru einungis 60% jákvæðir í garð Dana.

Norðmenn eru vinsælastir þeirra þjóða sem Gallup spurði um meðal Íslendinga, en 77% landsmanna eru jákvæðir í garð Norðmanna en aðeins 6% neikvæðir.