Íslenska olíufyrirtækið GeysirPetroleum, sem er í 20% eigu Fjárfestingarfélagsins Norvest ehf., hefur náð samkomulagi um yfirtöku á norska olíuráðgjafarfyrirtækinu Sagex AS og olíutæknifyrirtækinu Inoil AS. Munu félögin renna saman í nýtt öflugt félag sem heitir Sagex Petroleum ASA.

Fyrirtækið verður með höfuðstöðvar í Osló og Stafangri og verður með starfsemi í Norðursjónum og á alþjóðavettvangi. Markaðsvirði félagsins er 700 milljón norskra króna, eða sem svarar tæpum 7,6 milljörðum íslenskra króna. Geysir Petroleum hf. verður eftir sameininguna áfram til sem félag í íslenskri firmaskrá og þá sem dótturfélag Sagex Petroleum. Fyrirtækið First Securities var fjárhagslegur ráðgjafi við sameininguna. Er hún gerð með fyrirvara um samþykki yfirvalda í Noregi.

Fjárfestingarfélagið Norvest ehf. hefur síðan á síðasta ári verið stærsti einstaki hluthafi Geysis Petroleum með 20% hlut. Norvest er dótturfélag Straumborgar ehf. sem er í eigu Jóns Helga Guðmundssonar. Jón Þór Sigurvinsson orkuverkfræðingur hefur setið í stjórn Geysir Petroleum fyrir hönd Norvest og hann situr einnig í stjórn norska fyrirtækisins NOR Energy AS þar sem Norvest á líka 20% hlut. Með sameiningu Geysis Petroleum, Sagex og Inoil segir hann að orðið sé til raunverulegt olíufyrirtæki með 30 sérfræðinga með mikla reynslu í þessum geira í vinnu. Jón Þór segir marmiðið með þessum samruna að fá að taka þátt í leyfisveitingum í norsku lögsögunni í haust. "Þar með bætum við Noregi við okkar markaðssvæði," segir hann.

Sagex er þegar skráð á OTC markaði í Noregi og er ætlunin að skrá Sagex Petroleum á Oslo Axess markaðnum í vor. Þá segir Jón Þór hugsanlegt að fyrirtækið verði einnig skráð hér á landi í framtíðinni ef spennandi verkefni koma upp sem tengjast Íslandi. Þar er félagið þegar í startholunum ef heimild fæst til olíuleitar við Jan Mayen eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu 15. mars síðastliðinn.

Sagex var stofnað af fyrrum starfsmönnum Saga Petroleum árið 1999. Inoil AS sérhæfir sig í tækni við olíuvinnslu á úthafinu.

Afkvæmið yfirtekur foreldra sína

Eigendur Sagex stofnuðu Geysi Petroleum 2001, en Geysir hefur síðan notið ráðgjafar frá Sagex. Novest hefur síðan á síðasta ári verð stærsti einstaki hluthafinn í Geysi Petroleum. Félagið á dótturfélögin Inoil Technology AS og Inoil Petroleum AS., sem einbeitir sér að verkefnum í Noregi, Norður-Afríku og Kólumbíu.

Nýja félagið Sagex Petroleum ASA hefur þegar leyfi til olíuleitar í bresku, dönsku og færeysku lögsögunni. Fjöldi verkefna er síðan í vinnslu um allan heim að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. Verður félaginu stýrt af Terje Hagevang, núverandi framkvæmdastjóra Sagex og Amerada Hess.

Geysir sem var verðmætasti hlutinn í sameinuðu félagi átti fyrir leyfi til olíuleitar við Færeyjar. Þar á félagið 60% í leyfi á móti 40% hlut Atlantic Petroleum. Í dönsku lögsögunni aflaði Geysir sér rannsóknarleyfis á svokölluðu Central Graben svæði. Þar á Geysir 80% hlut á móti 20% hlut danska ríkisins. Er áætlað að hefja borun rannsóknarholu á því svæði 2009. Ef allt gengur upp ætti vinnsla að geta hafist þar 2013. Auk þess á Geysir verðmætar jarðbylgjumælingar (2D seismic) af hafsbotni við Jan Mayen sem keyptar voru af Inseis Terra árið 2001.

Í bresku lögsögunni hefur þegar fengist góður árangur af borunum og eru miklar væntingar um góðan afrakstur við vinnslu. Geysir á 10% í því verkefni og fyrirtækið Nor Energy á önnur 10%. Aðrir eigendur í verkefninu eru kanadíska fyrirtækið Antrim Energy Inc. og breska félagið Dana Petroleum Plc. Í sumar er áætlað að bora þrjár holur til viðbótar á svæðinu og reiknað er með að vinnsla geti þá hafist á síðari hluta ársins 2008.