Samantekt Póst- og fjarskiptastofnunar á símanotkun landsmanna undanfarin ár leiðir í ljós að samtals töluðu Íslendingar ríflega 20% skemur í heimasíma og farsíma árið 2006 en þeir gerðu árið 2004.

Á sama tíma fjölgaði fækkaði áskriftum á fastakerfinu um 3 þúsund og farsímum fjölgaði um 36 þúsund stykki. Mestu munar um minnkaða notkun heimasíma sem virðist þó ekki hafa haft í för með sér að fólk jafni notkunina með farsímamasi.

Samanlögð notkun Íslendinga á fastaneti símaþjónustu jafngildir því að þjóðin hafi árið 2004 talað í tæplega 23 þúsund mánuði í heimasímann, en árið á eftir jafngildir símanotkunin því að talað hafi verið í tæplega 17 þúsund mánuði og árið eftir, 2006, talaði þjóðin í rúmlega 14 þúsund mánuði.

Heimasímanotkunin minnkaði því um u.þ.b. 9 þúsund mánuði á þessu þriggja ára tímabili, að því er fram kemur í skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn á Íslandi og samantekt Snorra Þórs Daðasonar, verkefnastjóra þar, fyrir Viðskiptablaðið.

Yfirleitt er miðað við mínútur og eins og gefur að skilja eru þær mýmargar þegar allt er saman tekið, en hér eru þær umreiknaðar í mánuði til hagræðis.

Notkun á farsímanetinu stóð nær í stað 2005/2006

Vitanlega jókst farsímanotkunin á sama tímabili og jafngildir því árið 2004 að þjóðin hafi masað í farsíma rúmlega 9 þúsund mánuði sem óx upp í tæplega 11,5 þúsund mánuði árið á eftir en árið 2006 var notkunin nærfellt sú sama, jafnvel sjónarmun minni.

Ef notkunin á fastanetinu og farsímanetinu er saman tekin og umreiknuð í mánuði sem fyrr kemur í ljós sú athyglisverða staðreynd að hún hefur minnkað úr samtal 32.257 mánuðum árið 2004 niður í 25.697 mánuði árið 2006, þ.e. um 6.560 mánuði.

Þetta jafngildir því að á tímabilinu hafi þjóðin samtals talað rúm 20% skemur í síma 2006 en hún gerði tveimur árum fyrr. Hvort að þjóðin geri það til að draga úr símakostnaði eða vegna þess að henni liggur minna á hjarta en áður eða er orðin fljótmæltari skal ósagt látið.