Aðeins ein þjóð í heiminum er með stærri lífeyrissjóði, í hlutfalli við landsframleiðslu, en Íslendingar. Það eru Hollendingar. Þetta kemur fram í grein Gunnars Baldvinssonar, stjórnarformanns Landssamtaka lífeyrissjóða, í Morgunblaðinu í dag. Máli sínu til stuðnings vísar hann í skýrslu OECD sem birtist í lok nýliðins árs en byggir á gögnum frá 2012.

Í greininni kemur fram að í árslok 2012 voru aðeins þrjár þjóðir með lífeyrissparnað yfir 100% af landsframleiðslu. Hollendingar voru með 160%, Íslendingar 141% og Svisslendingar með 114%. Gunnar segir að hjá flestum OECD ríkjum hafi verðmæti lífeyrissparnaðar verið undir 20% af landsframleiðslu.

Gunnar segir að þessi samanburður sýni að lífeyrissjóðir gegni mjög mikilvægu hlutverki í íslensku hagkerfi, ekki síst þegar haft er í huga að mannfjöldaspár gera ráð fyrir að langlífi aukist og hlutfall aldraðra tvöfaldist á næstu áratugum. „Sjóðirnir greiða nú þegar megnið af ellilífeyri landsmanna og í framtíðinni mun vægi þeirra hækka þegar kynslóðir fara á eftirlaun sem hafa greitt í lífeyrissjóð alla ævina,“ segir Gunnar. Óvarlegt sé að búast við því að ríkissjóður geti greitt hærri eftirlaun í framtíðinni. Hann hafi verið rekinn með viðvarandi halla um árabil og hans bíði þau erfiðu verkefni að greiða niður skuldir og efla heilbrigðiskerfið.