Væntingavísitala Gallup mældist 96,7 stig í apríl og segir Greining Glitnis í Morgunkorni sínu að neikvæð umræða á undanförnum mánuðum og svartsýnar spár um horfur í íslensku hagkerfi og fjármálalífi hafa haft áhrif á væntingar neytenda.

Mælist væntingavísitalan undir 100 eru fleiri svarendur neikvæðir en jákvæðir á stöðu efnahagslífsins. Íslenskir neytendur eru þó nokkru bjartsýnni nú en í mánuðinum á undan.

„Líklega má rekja þá breytingu til þess að fleiri hafa gert minna úr hrakspám um íslenskt efnahagslíf, auk þess sem dregið hefur úr sveiflum í gengi krónunnar á milli mánaða. Þrátt fyrir þetta eru íslenskir neytendur talsvert svartsýnni nú en á sama tíma 2007, þegar vísitalan mældist um 140 stig,“ segir í Morgunkorni.

Þá segir í Morgunkorni að mat neytenda á núverandi ástandi er umtalsvert lakara nú en í mánuðinum á undan. Lækkar sú undirvísitala um 17 stig á milli mánaða og mælist nú 83,8 stig. Aðrir undirliðir vísitölunnar hækka frá fyrra mánuði en væntingar neytenda til næstu sex mánaða mælast 105,2 stig. Mat þeirra á efnahagslífinu er svo öllu dekkra, en vísitala þess mælist 80 stig.

„Mat neytenda á atvinnuástandi er enn nokkuð gott og mælist 111,5 stig, sem er skiljanlegt í ljósi þess hversu atvinnuleysi er enn lítið,“ segir í Morgunkorni.

Greining Glitnis segir mælingar væntingavísitölunnar undanfarna mánuði benda til þess að heimilin séu að bregðast við breyttu efnahagsumhverfi og að nú hægi á vexti einkaneyslu, en hún hefur aukist afar hratt á undanförnum árum.

„Í þjóðhagsspá okkar frá febrúar reiknuðum við með 3% samdrætti einkaneyslu á þessu ári, þar sem meirihluti samdráttarins muni koma fram á seinni hluta ársins,“ segir í Morgunkorni.