*

þriðjudagur, 28. janúar 2020
Innlent 14. desember 2019 17:02

Íslendingar náðu sér hraðar

Forseti útibús seðlabanka Bandaríkjanna í Kansasborg, vill taka upp eiginfjárkröfur líkt og eru á bönkum hér á landi.

Ritstjórn
„Það er stjórn Seðlabankans í Washington sem tekur ákvörðun um stefnumörkun og ég hef trú á því að þeir meti það svo að bankar landsins séu með nægilega mikið meira eigið fé almennt séð en var fyrir hrun,“ segir Esther George forseti bankans í Kansasborg.
Höskuldur Marselíusarson

Esther George, sem stýrir einum af tólf landshlutaútibúum Seðlabanka Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin ættu að fylgja fordæmi Íslands um hvernig bankastarfsemi landsins er háttað, í stað flókins regluverks til að hafa hemil á bönkum sem eru of stórir til að falla. Seðlabanki Íslands hélt á haustdögum ráðstefnu á Grand hótel um reynslu lítilla ríkja í vanda af samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og viðleitni þeirra til að stuðla að fjármálastöðugleika eftir efnahagskrísuna sem varð fyrir rúmum áratug.

George, sem er forseti seðlabankans í Kansasborg í Missouri-ríki Bandaríkjanna, flutti á ráðstefnunni erindi um umbætur í Bandaríkjunum í kjölfar efnahagskrísunnar. Þar færði hún meðal annars rök fyrir því að Bandaríkin ættu að taka upp svipað kerfi og er hér á landi. Það er að vera með ákveðnar, og hærri, eiginfjárkröfur á bankastofnanir meðan á efnahagsuppsveiflu stendur til að safna í sarpinn fyrir niðursveiflur.

„Ég tala út frá minni eigin margra ára reynslu, þar sem ég hef skoðað hvað það er sem gerir fjármálastofnanir sterkar þegar áföll dynja á efnahagslífinu, sem er óhjákvæmilegt að gerist. Það sem við vitum núna er að við erum með ákveðin fjármálafyrirtæki sem eru of stór því ef þau lenda í vandræðum getur það haft áhrif á allt hagkerfið. Það skapar aftur freistnivanda, sem við höfum áhyggjur af. Við skiljum fjármálastofnanir sem geta fallið,  og það er nauðsynlegt að svo geti gilt um þær allar, en hugsa þarf vandlega um hvað þarf að gera út af þessum stóru aðilum," segir George sem segist ekki vera hrópandinn í eyðimörkinni að færa rök fyrir þessari stefnubreytingu í bandaríska stjórnkerfinu.

„Ég held nú ekki að ég sé ekki ein, en reynsla mín í þessum málum gefur mér sterka sannfæringu um að þetta skipti máli. Eins og hægt var að heyra frá hinum ræðumönnunum á ráðstefnunni þá er kostnaðurinn við svona fjármálakrísur gríðarlegur, þó á mælikvarða vergrar þjóðarframleiðslu hafi krísan ekki verið jafnstór hjá okkur og hér á Íslandi. En þetta var gríðarlegt högg sem hægt er að sjá afleiðingarnar af enn þann dag í dag, því fólk upplifir ekki enn að það hafi jafnað sig á krísunni og því hafi verið bjargað líkt og bönkunum."

Esther George segir þessa upplifun almennings hafa haft miklar afleiðingar sem ekki sér enn fyrir endann á, þar á meðal sé aukinn uppgangur lýðhyggju ýmiss konar. En þó að hún og fleiri hafi fært rök fyrir reglum um eiginfjárauka fjármálastofnana í uppgangi sem hægt væri að lækka í niðursveiflu þá hefur sú stefna ekki orðið ofan á í stjórnkerfi seðlabankans. „Það er stjórn Seðlabankans í Washington sem tekur ákvörðun um stefnumörkun og ég hef trú á því að þeir meti það svo að bankar landsins séu með nægilega mikið meira eigið fé almennt séð en var fyrir hrun," segir George þegar hún er spurð hvers vegna bandaríski seðlabankinn hafi ekki tekið upp svipað kerfi.

„Stefnumótunarákvarðanir eru ákveðnar af stjórnarmönnunum sjö í höfuðstöðvum Seðlabankans í Washington, en það fellur í skaut okkar á svæðunum tólf að framfylgja stefnu þeirra þegar við lítum yfir bankastofnanir á okkar svæði. Þar liggur munurinn á okkar valdsviði og Seðlabankans í Washington. Þetta er valddreift kerfi sem hannað var fyrir meira en hundrað árum, því að bandarískur almenningur vantreystir í grundvallaratriðum samþjöppuðu valdi. Með þessari skiptingu fannst leið til að vera með stofnun sem er með stjórn staðsetta í höfuðborginni, skipaðri af forsetanum og samþykkt af efri deild þingsins, en með tólf svæðisbundnum útibúum, dreifðum um landið, til að tengja betur ákvarðanir um peningastefnuna við landið allt."

Betri tengsl við raunhagkerfið

Svæði seðlabankans í Kansasborg nær yfir vestari hluta Missouri-ríkis, en það er eina ríki Bandaríkjanna sem hefur tvær höfuðstöðvar landshlutaútibúa bankans, hin er í St. Louis í austurhluta ríkisins. Ásamt Kansas-ríkinu sjálfu, sem er hinum megin við Missouri ána, tilheyra Nebraska, Oklahoma, Colorado, Wyoming og norðurhluti Nýju-Mexíkó svæði seðlabankans sem Esther George stýrir.

„Ég trúi því að í kjölfar efnahagskrísunnar eigi þessi skipting enn frekar við en áður, því í stóru landi eins og Bandaríkjunum með efnahagslíf sem samsvarar 20 trilljónum dala, þá byggist það upp af þúsundum smárra samfélaga og fyrirtækja. Hver og einn af samstarfsmönnum mínum í bankanum eyðir miklum tíma í að tala við fólkið á okkar svæði, í raunhagkerfinu má segja, til þess að tryggja að við skiljum á hverju áætlanir þeirra velta, svo við séum ekki bara að einblína á hagtölurnar án samhengis," segir George.

Hún tekur undir að fólk geti orðið of einsleitt í hugsun ef allir vinna og starfa á sama stað. „Auðvitað, því minna sem fólk tengist hinum ýmsum þáttum efnahagslífsins, því erfiðara er að sjá samhengið, og þá ferðu frekar að starfa á grunni stefnumótunar og hugmyndafræði heldur en að hugsa um afleiðingarnar fyrir raunhagkerfið. Með þessu kerfi náum við að draga saman allar hliðarnar, sem ég held að leiði til betri ákvörðunartöku."

Esther George segir hægt að læra mikið af því hvernig Íslendingar tókust á við fjármálakrísuna hér á landi. „Eins og við heyrðum á ráðstefnunni þá var brugðist skjótt við hérna á Íslandi, með skýrri hugsun um hvaða ástæður væru fyrir vandanum og hvernig ætti að laga hann til framtíðar. Ég hef trú á því að það hafi haft áhrif á hve hratt íslenska hagkerfið náði sér á strik á ný. Í Bandaríkjunum sáum við hagkerfið ekki jafna sig jafnhratt, það tók lengri tíma að spyrna sér upp á yfirborðið á ný, þó að vöxturinn hafi verið ásættanlegur," segir George sem hefur trú á því að umgjörðin um hagkerfið hér á landi sé því sterkara en áður fyrir vikið.

„Í sterku markaðshagkerfi sem getur brugðist hratt og vel við breyttum aðstæðum viltu að fyrirtæki geti þrifist vel og dafnað, en líka fallið ef þau taka of mikla áhættu. En eftir því sem bankageirinn hefur orðið samþjappaðri því hefur verið erfiðara að leyfa því að gerast, og í staðinn höfum við reitt okkur á meira og meira af reglusetningum. Vandinn er að þeir sem setja reglurnar um hvað má og ekki má eru alltaf að reyna að ná í skottið á því sem bankarnir eru að gera."

Landbúnaðarsvæði með fjölda sparisjóða

George sér fyrir sér að reglurnar verði einfaldari og með minna flækjustigi en á móti skýrari um að bankastofnanir og fjármálafyrirtæki þurfi að vera með sterka eiginfjárstöðu. „Bankarnir munu auðvitað malda í móinn, þeir tregðast vitanlega við að hafa meira eigið fé því þeir vilja sem hæsta ávöxtun með því að geta lánað sem mest út, en því fylgir auðvitað meiri áhætta. Það réttlætir hins vegar að við setjum þeim skýrar reglur því kostnaðurinn getur orðið gríðarlegur fyrir almenning, fólk sem ekki hefur efni á að bera hann," segir George.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.