Íslendingar eru Norðurlandameistarar í vexti smásölufyrirtækja samkvæmt nýrri skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Deloitte gaf út í dag og kynnt var á fjölmennri ráðstefnu í Stokkhólmi. Baugur Group og Norvik eru efst á lista yfir þau smásölufyrirtæki á Norðurlöndunum sem hafa vaxið hraðast.

Í skýrslunni segir að Baugur Group sé ekki aðeins það fyrirtæki sem hafi vaxið hraðast á Norðurlöndunum heldur í öllum heiminum, eða um 106% árlega síðustu fimm árin. Baugur Group er þriðja stærsta smásölufyrirtækið á Norðurlöndunum, næst á eftir IKEA og ICA. Í fjórða sæti er Coop Norden, Kesko Corporation í fimmta sæti og H&M í sjötta sæti. Norvik er í 74. sæti á listanum yfir 100 stærstu smásölufyrirtækin á Norðurlöndunum.