Kortavelta Íslendinga jókst um 8,5% á milli ára að raungildi á erlendri grundu í október. Vöxtur nemur aðeins 1,5% innanlands. Greining Íslandsbanka segir vöxtinn í takt við tölur Ferðamálastofu Íslands um brottfarir Íslendinga voru 6,4% fleiri í október síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka kemur fram að vöxtur í kortaveltu einstaklinga í október er heldur hægari en sá 4,3% raunvöxtur kortaveltu sem var í september en þó hraðari en sá 1,1% vöxtur sem hefur að jafnaði verið það sem af er ári.

„Miðað við kortaveltutölurnar einar og sér mætti því draga þá ályktun að vöxtur í einkaneyslu það sem af er ári sé nær eingöngu vegna þess að hver Íslendingur sem heldur utan eyðir mun meira í ferðalaginu þetta árið en raunin var í fyrra. Ef sú er raunin að vöxtur einkaneyslu eigi sér að miklu leyti stað utan landsteinanna gætu framangreindar tölur bent til eitthvað hægari hagvaxtar en ella, enda kemur erlend neysla að fullu til frádráttar í innflutningsliðum þjóðhagsreikninga en innlend neysla aðeins að hluta,“ segir í Morgunkorninu.