*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Innlent 23. júlí 2018 11:01

Íslendingar óagaðir vegna herleysis

Forstjóri Íslenskra aðalverktaka dregur tölur um að norskur byggingariðnaður sé hagkvæmari en sá íslenski í efa.

Höskuldur Marselíusarson
Sigurður R. Ragnarsson er forstjóri ÍAV, sem eru í eigu svissneska verktafyrirtækisins Marti.
Eva Björk Ægisdóttir

Sigurður R. Ragnarsson forstjóri Íslenskra aðalverktaka telur að hægt væri að ná upp framleiðni í íslenskum byggingageira ef við myndum læra meira af svissneskum eigendum fyrirtækisins, sem hann telur þó kunna vel við íslenska drifkraftinn.

Að hans mati er vegakerfið hér á landi er orðið beinlínis hættulegt. Hann segir kominn tíma til þess nú eftir að átak hafi verið gert í heilbrigðismálum að setja 7-8 milljarða í vegakerfið næstu árin. Ekkert hafi verið gert í 10 ár sem hafi aukið umferðartafir í borginni um 40%.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá segir hann að borgin hafi heldur ekki staðið sig vel í úthlutun lóða, en fyrirtækið sé nú að hefja byggingu um 500 íbúða. Hann segir þéttingarstefnu borgarinnar ekki hafa komið ungu fólki og þeim efnaminni til góða.

Trúir ekki að Norðmenn séu framleiðnari en Íslendingar

Sigurður segir veðráttuna hafa áhrif á framleiðni í byggingargeiranum hér á landi en nýlegar tölur sögðu hana mun meiri í Noregi en á Íslandi.

„Ég trúði reyndar ekki að það gæti staðist að framleiðni í Noregi væri nokkrum tugum prósenta meiri en hér. En við getum klárlega gert betur, við vinnum oft mjög langa vinnudaga sem til lengri tíma þýðir að menn verða þreyttir og þá dettur framleiðnin niður. Það gæti verið eitt af því sem við gætum gert að vinna sem mest í dagvinnu,“ segir Sigurður sem nefnir aðra hlið á þessum málum.

„Mér hefur fundist pínulítið vanta upp á það hjá Norðmönnum og Dönum líka að stundum taka á því og klára verkefni þó að vinnudagurinn sé búinn. Ég hef spurt sjálfan mig að því að hverju svissneska móðurfyrirtækið okkar vilji eiga fyrirtæki á Íslandi, en ég held að það sé að því að þeir kunna vel við íslenska hugsunarháttinn, vertíðarstemninguna og að við vílum ekkert fyrir okkur og göngum í hlutina. Svisslendingarnir kunna að meta það en á sama tíma getum við lært af þeim agaðri vinnubrögð sem framleiðnin er beintengd.

Ég tel að okkur Íslendinga skorti almennt aga meðan þá vantar eilítið upp á sveigjanleikann sem við höfum, en einhver blanda af hvoru tveggja gæti verið góð fyrir framleiðni. Ég held að ástæðan fyrir því að Íslendingar eru óagaðir upp til hópa sé að við höfum ekki haft her, blessunarlega getum við sagt, en mikið af okkar erlenda vinnuafli hefur sinnt herþjónustu og er því agaðra í sínum vinnubrögðum.

Til dæmis eru margir þeirra sem eru að vinna í erfiðum aðstæðum við uppsetningu snjóflóðavarna í Kubbi fyrir ofan Ísafjörð fyrrverandi hermenn. Það er ekkert hægt að bjóða hverjum sem er að vinna í svona aðstæðum, og eins er með þá sem eru í jarðgangagerð, enda ekki hver sem er sem getur unnið í myrkri og erfiðum aðstæðum jafnvel árum saman.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is