Seðlabanki Kína og Seðlabanki Íslands hafa endurnýjað gjaldmiðlaskiptasamning sín á milli. Upphaflegi skiptasamningurinn var undirritaður 9. júní 2010 og var tilgangur hans að efla tvíhliða viðskipti landanna og styðja við beina fjárfestingu, ásamt því að efla fjármálaleg tengsl.

Í tilkynningu frá Seðlabankanum kemur fram að fjárhæð samningsins sé 66 milljarðar króna eða 3,5 milljarðar kínverskra júana. Samningurinn gildir í þrjú ár og verður mögulegt að endurnýja hann að þeim tíma liðnum.