Kaupþing er talið eiga í lokaviðræðum um að kaupa breska tískuhúsið Phase Eight af breska fjárfestingasjóðnum Barclays Private Equity, segir í frétt breska dagblaðsins The Daily Telegraph. Áætlað kaupverð í tæplega átta milljarðar króna, eða um 55 milljónir punda, segir blaðið.

Viðskiptablaðið greindi frá því í desember síðastliðnum að íslenskir aðilar væru að skoða Phase Eight-keðjuna og var Baugur þá orðaður við félagið. The Daily Telegraph segir að Dalah-fjölskyldan, sem er hluthafi í Jane Norman ásamt Kaupþingi og Baugi, hafi einnig áhuga á að taka stöðu í félaginu.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er það ólíklegt að Kauþing kaupi Phase Eight en bankinn gæti þó tekið stöðu í félaginu í gegnum fjárfestingaeiningu sína (e. principal investment), ásamt því að lána til kaupanna.

Ekki hefur fengist staðfest hvort að Baugur hafi áhuga á að fjárfesta í Phase Eight.