Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur meira en nokkur annar forsætisráðherra á Norðurlöndunum tekið upp hugmyndafræði Ronalds Reagan og Margaret Thatcher í efnahagsmálum.

Hugmyndafræði sem felur í sér sölu ríkiseigna, meira frelsi og útrás með skuldsetningu.

Þannig byrjar umfjöllum Bloomberg fréttastofunnar um efnahagsástandið og forsögu þess í dag en sérstaklega er fjallað um Geir H. Haarde, forsætisráðherra.

Þá kemur fram í umfjöllun að margir samlandar Geirs vilji að ríkisstjórnin,  undir forystu Sjálfstæðisflokksins, axli ábyrgð á því að hafa gert eitt ríkasta land heims að betlurum í samdrætti, eins og það er orðað í umfjöllun Bloomberg.

Bloomberg hefur eftir Þorvaldi Gylfasyni, prófessor í hagfræði við HÍ sem lengi hefur verið gagnrýninn á Sjálfstæðisflokkinn, að mörgum finnist ríkisstjórnin hafa haldið illa á spilunum.

„Það verður mikil pólitísk uppstokkun í næstu kosningum,“ hefur Bloomberg eftir Þorvaldi en næstu kosningar eru áætlaðar vorið 2011.

Frá ríkidómi til betlara

Í umfjöllun Bloomberg er því haldið fram að Íslands, samkvæmt lífskjaravísitölu Sameinuðu þjóðanna verið fimmta ríkasta þjóð í heimi um síðustu áramót en horfi nú fram á erfiða tíma, til að mynda sé innflutningur í uppnámi.

Þá er tekið fram að Geir H. Haarde og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri hafi tekið fram betlaraskálina (orðalag Bloomberg) og beðið um lán frá Rússlandi og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (IMF). Þá er tekið fram að IMF hefur ekki aðstoðaða vestræna þjóð frá því að Bretar báðu um aðstoð árið 1976.

Þá hefur Bloomberg eftir Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG að Íslendingar þurfi ekki að bíða kosninga. Í símaviðtali við Bloomberg segir Steingrímur að fyrst þurfi að klára björgunaráætlanir og koma á stöðugleika. Þá sé umsvifalaust tími fyrir kosningar.

Þá spáir Steingrímur því að eftirlitshlutverk ríkisins komi til með að aukast og að eftirlitsstofnanir verði efldar.

Í umfjöllun Bloomberg er fjallað um valdatímabil Geirs og Davíðs. Hvernig ríkiseignir voru seldar, skattar lækkaðir og í kjölfarið hafa bankarnir skuldsett sig um of og hafi nú ekki efni á að greiða skuldir sínar.

Þá hafi bankarnir einnig lánað mönnum eins og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórnarformanni Baugs. Í umfjöllun Bloomberg kemur fram að Jón Ásgeir vinni nú hörðum höndum að því að selja eignir til að eiga fyrir skuldum sínum gagnvart bönkunum.

Of auðvelt að benda á einn mann

Í lok umfjöllunar Bloomberg er haft eftir Þorvaldi Gylfasyni að bankastjórn Seðlabanans hafi mistekist hraparlega margir fari nú fram á að þeir verði látnir fara en sérstaklega er minnst á Davíð Oddsson.

Steingrímur Sigfússon tekur undir það að mistök hafi verið gerð en segir meginábyrgðina liggja hjá Geir H. Haarde, forsætisráðherra.

„Það er of auðvelt fyrir ríkisstjórnina að benda á einn embættismann og losa sig við hann,“ segir Steingrímur.

Sjá umfjöllun Bloomberg.