Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haldlagði vefþjóna Silk Road fíkniefnamarkaðstorgsins í gagnaveri Thor í Hafnarfirði, sem er rekið af Advania, í haust í fyrra. Áður hafði hún tekið leynileg afrit af innihaldi vefþjónanna. Var það gert að beiðni bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sem grunaði að vefþjónarnir væru notaðir til að hýsa starfsemi Silk Road.

Íslendingar panta oft fíkniefni

Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður hjá embætti tollstjóra, segir mikla aukningu hafa orðið á innflutningi á fíkniefnum með pósti eftir tilkomu markaðstorga með fíkniefni á netinu. „Þetta á ekki bara við um fíkniefni, heldur líka lyf, stera og hvaðeina annað,“ segir hann. „Við komumst aldrei yfir nema brot af því sem kemur til landsins,“ bætir hann við.

Kári segir að algengast sé að fíkniefni séu stíluð á póstkassa í tómum húsum eða jafnvel á fjölbýlishús á heimilisfang annars aðila, þar sem kaupandinn situr fyrir sendingunni áður en eigandi póstkassans verður var við sendinguna. Það komi þó einnig fyrir að kaupendur láti senda á eigin heimilisföng.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .