Aukið frelsi í verslun með landbúnaðarvörur er mikið áhugamál Samtaka verslunar og þjónustu og má færa fyrir því rök. Hins vegar þyngra þegar kemur að rökum fyrir banni og takmörkunum á innflutningi landbúnaðarvara að lítið er um sjúkdóma hér sem borist hefur úr erlendum dýrum og matvælum unnum úr þeim, að sögn Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Steingrímur var ræðumaður á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu í gær. Í ræðunni lagði hann ríka áherslu á að vernda íslenska landbúnað fyrir erlendum smitsjúkdómum. Heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslu nálgist 60 milljörðum króna. Með aukinni eftirspurn eftir matvælum á komandi áratugum og útliti fyrir verðhækkun á matvöru verði íslenskar landbúnaðarvöru hvoru tveggja í senn samkeppnisfærari og mikilvægari sem gjaldeyrissparandi og gjaldeyrisskapandi samkeppnisgrein. Með auknu frelsi á innflutningi landbúnaðarvara sé hætt við að þetta verði ekki raunin, að sögn Steingríms.

Ekki þröng sérhagsmunagæsla stjórnvalda

Og Steingrímur sagði:

„Það er mikil og vanhugsuð einföldun að halda því fram að hér sé um að ræða þrönga sérhagsmunagæslu stjórnvalda  með landbúnaði gegn heimilunum í landinu - eins og sumir vilja láta liggja að. Það er mjög nauðsynlegt – og töluvert á sig leggjandi - fyrir Íslendinga að fara varlega þegar kemur að innflutningi á landbúnaðarvörum og eða lifandi dýrum sem geta borið með sér smitsjúkdóma í menn eða dýr. Aðstaða okkar sem eyþjóðar er einstök – og ef við misstígum okkur þá getur það haft í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar til langs tíma..“

Steingrímur hélt áfram:

„Við Íslendingar höfum verið blessunarlega lausir að öllu eða mestu leyti við ýmsa þá sjúkdóma sem eru landlægir í mörgum heimshlutum, þ.m.t. í Evrópusambandinu. Aðeins lítill hluti þekktra sjúkdómsvalda, sem herja innan ESB, finnst á Íslandi. Af þeim sökum er búfé á Íslandi varnarlítið gagnvart ýmsum smitvöldum – og þau dýr, sem talið er að hafi minnsta mótstöðu gegn sjúkdómum, eru hross, sauðfé og nautgripir.“