*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 2. mars 2006 12:26

Íslendingar reyndu að kaupa Parken

Ritstjórn

Við borð lá að danski þjóðarleikvangurinn, Parken í Kaupmannahöfn, yrði seldur. Íslenskir fjárfestar gerðu tilraunir til að eignast leikvanginn og það gerðu einnig breskir fjárfestar. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Þar kom fram að íslenskur fjárfestingasjóður leitaði eftir því að fá að kaupa hlutabréf í Parken-íþróttaleikvanginum í hjarta Kaupmannahafnar þar sem íslensk knattspyrnulandslið hafa oft tapað illa. Íslensku fjárfestarnir náðu ekki að loka kaupunum og að lokum keypti danski auðmaðurinn Steen Larsen leikvanginn en hann á hlut í nokkrum íþróttaliðum í Danmörku.

Frásögn RÚV byggir á Börsen að hluta og þar kom fram að annar danskur auðkýfingur, Fleming Östergård, seldi Larsen og Dýrtíðarsjóði launþegasamtakanna rúmlega 50% hlut í Parken. Östergård vildi hvorki selja Íslendingum né Bretum íþróttaleikvanginn. Það var reyndar þessi Östergård sem byggði Parken upp sem fjárhagslega sterkt fyrirtæki. Parken er hans mikla uppáhald og hann gat ekki hugsað sér að leikvangurinn lenti í höndum útlendinga. Íslendingar fá ekki hvaðeina sem þeir benda á hér í Danmörku, segir í frétt í dönsku kauphallartíðindunum, Börsen, í dag. Steen Larsen hefur um hríð reynt að hrista af sér bæði breska og íslenska fjárfesta - og hafði á endanum betur, segir Börsen.