Samkvæmt útreikningum Greiningar Íslandsbanka er hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna talsvert hærri en olíusjóður Norðmanna en báðum þessum sjóðum er ætlað að standa undir lífeyri landsmanna.

Olíusjóður Norðmanna er nú 1.281 milljarðar norskra króna samkvæmt nýjum tölum. Það sem af er ári hefur sjóðurinn aukist mikið eða um 265 milljarða norskra króna vegna hækkunar á olíuverði og góðrar ávöxtunar. Á þriðja ársfjórðungi einum og sér stækkaði sjóðurinn um 97 milljarða norskra króna. Miðað við stöðu sjóðsins jafngildir hann 2,6 milljónum kr. á hvern Norðmann miðað við gengi norsku krónunnar í dag.

Norðmenn munu ætla sér að nota sjóðinn til að fjármagna lífeyrisgreiðslur framtíðarinnar en þar í landi er gegnumstreymiskerfi og lítil sjóðasöfnun í lífeyriskerfinu fyrir utan olíusjóðinn. Það má því segja að Norðmenn séu með lífeyrissjóðskerfi sem er mjög ólíkt því sem gerist hér á landi segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna nam 1.123 milljörðum kr. í lok september síðastliðnum og hefur vaxið um ríflega 15% frá september í fyrra. Reiknað á hvern íbúa er þetta 3,8 milljónir kr. eða tæplega helmingi hærri upphæð en felst í olíusjóði Norðmanna. Hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna er því talsvert hærri en olíusjóður Norðmanna sé miðað við þennan einfalda samanburð.