Eins og flestir hafa tekið þá hefur verið mikill viðsnúningur á íslenska þjóðarbúskapnum verið ótrúlegur ef tekið er mið af stöðunni sem var uppi fyrir örfáum árum. Hægt er að benda á hagvísa á borð við að gjaldeyrisskortur hefur snúist í gnægð gjaldeyris, atvinnuleysi hefur snúist í skort á vinnuafli og samfara því hafa laun hækkað verulega frá byrjun árs og gengi krónunnar styrkst nánast á hverjum degi frá því um mitt sumar og nemur styrkingin 17% frá byrjun þessa árs. Þetta bendir greiningardeild Arion banka á í nýjum markaðspunkti sínum.

„Á suma mælikvarða má segja á Íslendingar séu ein allra ríkasta þjóð í heimi og krónan sé sterkasti gjaldmiðill í heimi. Stóra spurningin er því hvort það sé eitthvað sem getur staðist til lengri tíma,“ segir enn fremur í greiningu bankans.

Einnig bendir greiningardeildin á eftirfarandi: „Gengi krónunnar endurspeglar m.a. framleiðslu í hagkerfinu, væntingar um efnahagsþróun og eftirspurn íslenska hagkerfisins. Þessi hraða gengisstyrking hefur veruleg neikvæð áhrif á afkomu útflutningsfyrirtækja og veikir samkeppnisstöðu þeirra. Á sama tíma stuðlar hún að mikilli aukningu innflutnings. Stórbætt skuldastaða þjóðarbúsins við útlönd og önnur hagstæð þróun þýðir að jafnvægisraungengi er líklega talsvert hærra en það var fyrir fáeinum árum síðan. En hvar gæti nýtt jafnvægisraungengi legið? Miðað við það jafnvægisraungengi sem við mátum í nýlegri hagspá okkar er raungengi krónunnar í dag um 10-12% hærra en staðist getur til lengdar. Talsverð óvissa er um þetta mat og yfirleitt sveiflast gengi gjaldmiðla í kringum jafnvægi. Því eru frávik frá langtímajafnvægi eðlileg og ásættanleg svo fremi sem þau verði ekki jafn mikil og t.d. á árunum 2004-2008.“

Verðlag hærra á Íslandi en í Noregi

Ef að litið er til hlutfallslegs verðlag milli nokkurra landa miðað við mismunandi mælikvarða Eurostat, IMF og, OECD, auk nýjustu gengisþróunar krónunnar kemur ýmislegt áhugavert í ljós.Til að mynda hefur verðlag á Íslandi hækkað talsvert frá árinu 2015 og er:

  • 53% hærra en að meðaltali í ESB.
  • Ísland er 7% dýrara en Noregur.
  • Og 4% frá því að vera dýrara en Sviss.

„Árið 2015 var Sviss dýrasta land í heimi miðað við mismun á landsframleiðslu í dollurum á nafnvirði og leiðrétt fyrir kaupmáttjaröfnuði (PPP) skv. mati IMF eins og má sjá hér að neðan. Frá miðju ári 2015 hefur íslenska krónan styrkst um 22% gagnvart svissneskum franka svo að ef við miðum við kaupmáttarleiðrétt gengi gjaldmiðla skv. IMF frá 2015, þá er Ísland nú komið upp fyrir Sviss og að líkindum orðið dýrasta land í heimi á þeim mælikvarða,“ er einnig tekið fram í greiningunni.