Laxeldisfyrirtækið Ice Fish Farm, sem er skráð á markað í Noregi, hefur tilkynnt um lokað hlutafjárútboð ‏þar sem félagið hyggst sækja 44 milljónir evra, eða um 6,5 milljarða króna. Íslendingar í hluthafahópi félagsins hafa skráð sig fyrir tæplega 2 milljarða íslenskra króna.

Í tilkynningu Ice Fish Farm, sem hét áður Fiskeldi Austfjarða, kemur fram að Austur Holding AS, sem Ísfélag Vestmannaeyja á 29,3% hlut í a móti Måsøval Eiendom, hafi skráð sig fyrir hlutum að andvirði 18,1 milljón evra, eða sem nemur 2,7 milljörðum króna. Ísfélagið leggur því til nærri 800 milljónir íslenskra króna í hlutafjárútboðinu. Jafnframt mun Austur umbreyta hluthafaláni að andvirði 21,2 milljónum evra í hlutafé.

Þá hefur Eggjahvíta ehf., í eigu Guðmundar Gíslasonar sem stofnaði fiskeldisfyrirtækið árið 2012, skuldbundið sig til að leggja félaginu til 4,5 milljónir evra, eða um 666 milljónir króna, í formi nýs hlutafjár ásamt því að umbreyta skuldum að andvirði 0,9 milljónum evra.

Krossey ehf., dótturfélag Skinneyjar-Þinganess, hefur einnig skuldbundið sig til að taka þátt í útboðinu fyrir 4,0 milljónir evra eða sem nemur tæpum 600 milljónum króna. Krossey mun einnig umbreyta 4,1 milljónar evra hluthafaláni.

Í tilkynningunni segir að með hlutafjáraukningunni og umbreytingu hluthafalána sé verið að uppfylla skilmála 156 milljóna evra lánasamnings við DNB Bank, Nordea Bank, Arion Banka og Landsbankann.