*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 20. maí 2016 11:10

Íslendingar sigruðu Angry Birds

Íslenskur tölvuleikur sigraði Angry Birds 2 á norrænni tölvuleikjahátíð í gær.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á norrænu tölvuleikjaverðlaunahátíðinni Nordic Game Awards sem fór fram í Malmö í gærkvöldi gerði íslenskur tölvuleikur, Box Island, sér lítið fyrir og sigraði meðal annars þekkt nöfn eins og leikinn Angry Birds 2 í flokknum 'besta skemmtunin fyrir alla'.

Þessir tveir leikir voru tilnefndir ásamt leikjunum SteamWorld Heist, Zombie Vikings, AG Drive, Shiftlings og Sofus & Månemaskinen til verðlaunanna, en Vignir Örn hjá Radiant Games, sem gefur út leikinn, sagði að þeir hefðu aldrei búist við sigri þegar fengu tilnefninguna. Endaði það með því að vinur félaganna sem reka fyrirtækið tók við verðlaununum fyrir þeirra hönd enda enginn fulltrúi frá þeim á Nordic Game ráðstefnunni þar sem verðlaunin voru veitt.

Fjórir íslenskir tölvuleikir voru tilnefndir til verðlauna á hátíðinni í ár, það voru auk Box Island leikirnir EVE Gunjack, Kingdom og Aaru´s Awakening. Af þeim hlaut EVE Gunjack frá CCP sérstaka viðurkenningu frá dómnefnd fyrir að vera framarlega í Virtual Reality tækni, en leikurinn er hraður geimskotleikur þar sem spilarinn notar höfuðhreyfingar til að ná miði á andstæðinga sína. Til þess eru raunveruleikagleraugun Samsung Gear VR notuð, en nýlega tilkynnti CCP að leikurinn væri mest seldi leikurinn fyrir þau.

Leikurinn Cities: Skylines frá leikjafyrirtækinu Colossal Order í Finnlandi hlaut svo aðalverðlaun kvöldsins í flokknum besti norræni tölvuleikur ársins 2015. 

Ævintýraleikur sem kynnir börnum fyrir forritun

Íslenski leikurinn Box Island fer í alþjóðlega útgáfu sem miðar sérstaklega á Bandaríkjamarkað 16. júní komandi. Er hér um að ræða ævintýraleik sem gerist á samnefndri eyju sem er sérstaklega sniðinn að börnum á aldrinum 8 til 12 ára.

Markmiðið með leiknum er að kenna þeim undirstöðuatriði forritunar í gegnum skemmtilegar þrautir þar sem þau setja upp runu aðgerða, lykkja og skilyrðissetninga án þess að þurfa að hafa þekkingu á forritunarkóða. Þannig eigi þau að komast inní grunnhugsunina á bakvið forritun í gegnum skemmtilega ævintýraupplifun þar sem þau fylgja hetjunni Hiro sem verður strandaglópur á eyjunni Box Island. Vonast þeir hjá Radiant Games til að foreldrar sem vilji búa börn sín vel undir sífellt tæknivæddari framtíð taki hann upp á arma sína. 

Í notendaprófunum þar sem börn hafa fengið að prófa leikinn í grunnskólum hér á landi, með það að markmiði að skoða hver áhrifin eru á skilning á forritun hefur honum verið vel tekið: „Ég var að koma úr Vífilsskóla í Garðabæ þar sem ég þurfti eiginlega að slíta spjaldtölvurnar úr höndum krakkanna því þau vildu ekki hætta eftir að 40 mínúturnar voru búnar“ segir Vignir Örn í viðtali við Viðskiptablaðið.