„Það er allt önnur og meiri eftirspurn eftir þjónustu ísbílsins frá íslenskum ferðamönnum innanlands heldur en frá erlendum ferðamönnum, og hefur alltaf verið þannig. Að það séu 100 þúsund Íslendingar á faraldsfæti um landið er því miklu meiri sölubónus fyrir okkur heldur en að tvær milljónir erlendra ferðamanna séu á ferðinni," segir Ásgeir Baldursson, framkvæmdastjóri Ísbílsins.

„Frá svona meðalári er þetta alla vega svona 20 til 30% aukning, jafnvel meira tímabundið á sumum stöðum. Hún hefur þó minnkað aðeins frá því að mest var þegar Covid læsti alla inni, því ef samkomubannið hefði verið áfram í allt sumar þá værum við eflaust frekar að tala um 50 til 100% aukningu."

Ásgeir segir veðurfar og annað valda miklum sveiflum í rekstri fyrirtækisins, sem veltir á milli 170 til 200 milljónum á meðalári, og hafði hann því skiljanlega miklar áhyggjur af sumrinu þegar heimsfaraldurinn skall á í vor.

„Það voru allir bogar spenntir til hins ítrasta við að reyna að fjármagna byrjun vertíðarinnar, en þá þurfum við alltaf að kaupa mikið af vörum svo manni leist ekki á blikuna og hvort fyrirtækið væri jafnvel „fallit". Eftir að hafa sett upp alls kyns smitvarnarráðstafanir og sóttvarnavinnureglur prófuðum við að keyra í eitt hverfi á höfuðborgarsvæðinu og dingla í smá stund og sjá hvað gerðist. Þá sáum við að fólk tók okkur mjög vel, en þetta var í lok mars, alveg mánuði fyrr en við höfum nokkurn tímann byrjað á höfuðborgarsvæðinu," segir Ásgeir.

„Þarna var fólk hrætt við að fara út í búð og byrjað að panta meira á netinu, svo við rigguðum líka upp mjög grófri pöntunarþjónustu á netinu og svo byrjuðum við að keyra um sveitir landsins. Við sáum líka að fólk var mjög ánægt með hversu vel við pössuðum okkur, stigum vel frá hurðinni áður en nokkur kom til dyranna ef við bönkuðum upp á, sprittuðum posa og allt sem fólk snerti og settum vörurnar á jörðina og svo framvegis."

Ásgeir segir pöntunarsíðuna hafa kallað á mikið umstang, sem ekki hafi verið tími fyrir í sumar en nú stefnir félagið á að setja upp aðra og sjálfvirkari síðu um næstu mánaðamót. „Það að við náðum um 1% af venjulegri ársveltu utan háannatíma lofar þónokkuð góðu, sérstaklega ef verslunin verður þægilega uppsett. Þarna var fólk virkilega að senda mér pöntun í gegnum síðuna, taka á móti tölvupósti og fara svo inn á heimabankann sinn og borga upphæðina sem þar kom fram áður en það fékk vöruna afhenta," segir Ásgeir.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar óttast að svikalogn ríki hjá greininni.
  • Hard rock hefur tapað meira en 900 milljónum frá því að staðurinn opnaði aftur á Íslandi árið 2016.
  • Stóru tæknifyrirtækin birtu árshlutauppgjör fyrr á árinu en þau vega um fjórðung af S&P 500 vísitölunni í dag.
  • Nýr Land Rover Defender er fallegur ásjónu og yndi í akstri en verðmiðinn gæti fælt einhverja frá.
  • Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri  segir óumflýjanlegt að endurskipuleggja ferðaþjónustuna.
  • Farið er ítarlega yfir rekstur viðskiptabankanna þriggja á fyrri hluta ársins.
  • Spjallmenni eru ekki alltaf ávísun á sparnað eða bætta afkomu.
  • Rætt er við nýjan framkvæmdastjóra Stefnis.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um sóttvarnir og samfélagssátt.
  • Óðinn skrifar um Icelandair og vinnudeilur.