Danska fasteignafélagið Property Group hefur keypt ellefu fasteignir í bakhúsum og við Strikið niðri við Ráðhústorgið fyrir liðlega 33 milljarða íslenskra króna af Oskar Jensen Gruppen.

Property Group er í meirihlutaeigu íslenskra fjárfesta, m.a. Birgis Bieltvedt, Guðmundar Þórðarsonar og Straums að því er kemur fram í frétt Børsen sem segir þetta ein stærstu fasteignaviðskipti í Danmörku.

Property Group mun yfirtaka eignirnar smám saman en Oskar Jensen hefur unnið að endurnýjun og þróun bygginganna á umræddu svæði og er gert ráð fyrir að búið verði að afhenda allar eignirnar á næstu tveimur til þremur árum og mun lokaverð eigna ráðast af leigusamningum og leiguverði þeirra þegar þær verða afhentar.

Jesper Damborg, forstjóri Property Group, segir að félagið eigi nú í viðræðum við öfluga danska fjárfesta til þess að koma að verkefninu og stefnt sé að því að fá þrjá til fjóra þeirra til að koma inn sem meðeigendur Property Group að þessum kaupum.