Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu, hefur undirritað viljayfirlýsingu um svæðabundið samstarf á sviði orkumála. Markmiðið með samstarfinu, sem hlaut nafnið RENREN (Renewable Energy Regional Network), er að koma á virku samstarfi milli svæða í Evrópu þar sem til staðar er sérþekking á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Þetta kemur fram í vefriti utanríkisráðuneytisins.

Þar er haft eftir Stefáni Hauk að vonir standi til að samstarfið verði til þess að stuðla að enn frekari notkun slíkra orkugjafa. Í yfirlýsingunni kemur fram vilji til að styðja við samstarf fyrirtækja og stofnana á þessum svæðum og skapa vettvang fyrir pólitísk skoðanaskipti um þessi mál. Þá er stefnt að því að efla vitund almennings um mikilvægi sjálfbærrar þróunar á sviði orkumála.

Samstarfsyfirlýsingin var undirrituð fyrir hönd eftirtalinna svæða: Kýpur, Íslands, Norður-Svíþjóðar, Slésvíkur og Holsetalands, Efra-Austurríkis og Wales. Öll þessi svæði hafa náð langt, hvert á sínu sviði, í hagnýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Stefnt er að því að fá fleiri svæði til þátttöku í samstarfinu þegar fram líða stundir.

Auk sendiherrans sátu þeir Þorkell Helgason, orkumálastjóri, og Stefán Baldursson, vísindafulltrúi í sendiráðinu í Brussel, fundinn fyrir Íslands hönd. Flutti Þorkell ávarp á fundinum, fyrir hönd iðnaðarráðherra, þar sem hann gerði m.a. grein fyrir einstakri stöðu Íslands í hagnýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Þá ávarpaði ráðherra orkumála hjá Evrópusambandinu, hr. Andris Piebalgs, fundinn.

Iðnaðarráðuneytið mun hafa veg og vanda af þátttöku Íslands í RENREN.