Íslendingar eru heimakærar sófakartöflur samkvæmt könnun sem ELKO raftækjaverslun gerði í byrjun mánaðarins. Þar kom fram að Íslendingar óska sér heitast að fá sjónvarp í jólagjöf í ár.

Spurt var: „Hvað myndir þú mest vilja í jólagjöf af eftirfarandi vörum?” Og var möguleiki að velja allt að fimm vörur. Könnunin var gerð dagana 1. til 4. nóvember og tóku yfir 10 þúsund manns þátt í henni.

Svo virðist sem svarendur séu á einu máli yfir því hvað þeir óska sér heitast í jólagjöf þetta árið en yfirgnæfandi meirihluti, þvert á aldur og kyn, setti sjónvarp í 1. sæti.

Mismunandi óskalistar kynjanna

Kynin settu svo ólíka hluti á óskalistann í næstu sæti. Karlar settu eftirfarandi vörur í næstu sæti: Playstation leikjatölvu (2. sæti), dróna myndavél (3. sæti), iPhone (4. sæti) , Ipad spjaldtölva (5. sæti).

Konur voru hins vegar á örlítið annari línu, næst á eftir sjónvarpinu óskuðu þær sér helst iPhone (2. sæti), Ipad spjaldtölvu (3. sæti), heilsuúr (4. sæti) og að lokum settu þær útigrill í fimmta sæti.

Athygli vekur í niðurstöðum könnunarinnar að um 74% svarenda segjast trúa á jólasveininn og má leiða að því líkum að það hafi með stórhuga óskalistann að gera.

Eins og gefur að skilja, er ekki enn vitað um fylgni stærstu óskanna og þess sem jólasveinninn ákveður svo að gefa, þó ljóst sé af þessari könnun að yfirgnæfandi meirihluti fólks ber mikið traust til jólasveinsins og gjafmildi hans.