Stjórnvöld gera ráð fyrir því að þörf sé fyrir 24 milljarða Bandaríkjadala til loka ársins 2010 vegna bankahrunsins.Þar af eru um 19 milljarðar vanskil vegna skulda yfirteknu bankanna þriggja, en afgangurinn er sjóðsþörf að fjárhæð 5 milljarðar Bandaríkjadala.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu um áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Yfirlýsingunni hefur verið dreift á Alþingi. Hún fylgir sem greinargerð með þingsályktunartillögu um að Alþingi feli ríkisstjórninni að leiða til lykta áform um aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Í yfirlýsingunni, sem undirrituð er af formanni seðlabankastjórnar, Davíð Oddssyni og fjármálaráðherra, Árna M. Mathisen, er ekki útilokað að stýrivextir verði hækkaðir enn frekar.

Yfirlýsinguna má finna í heild sinni hér .

Í henni segir m.a.:

„Hrun bankakerfisins hefur leitt af sér talsverða þörf fyrir erlent lánsfé . Við gerum ráð fyrir að þessi þörf sé 24 milljarðar Bandaríkjadala á tímabilinu til loka ársins 2010. Þar af eru um 19 milljarðar vanskil vegna skulda yfirteknu bankanna þriggja, svo og fjármagn til að gera upp nauðsynlegar greiðslur tengdar erlendum innstæðum, en afgangurinn er sjóðsþörf að fjárhæð 5 milljarðar Bandaríkjadala. Við gerum ráð fyrir að 2 milljarðar Bandaríkjadala fáist með láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem skilur eftir afgangsfjárþörf er nemur 3 milljörðum Bandaríkjadala. Við gerum ráð fyrir að þetta bil verði brúað með tvíhliða lánssamningum og munum ljúka viðræðum þess efnis áður en stjórn sjóðsins tekur mál okkar fyrir. Mat á því hvernig gengur að mæta fjárþörf okkar verður hluti af ársfjórðungslegum endurskoðunum okkar og sjóðsins."