Íslandsbanki hefur gefið út skýrslu um íslenskan sjávarútvegð árið 2016. Þar kemur meðal annars fram að Ísland sé nú í 20. sæti á lista yfir stærstu fiskveiðuþjóðir heims — og lendi því mitt á milli Spánar og Taívan á listanum. „Íslenskur sjávarútvegur stendur afar vel í samanburði við sjávarútveg stærstu fiskveiðiþjóða heims þrátt fyrir að þjóðin sé á meðal þeirra fámennustu á listanum,“ kemur meðal annars fram í greiningu Íslandsbanka.Íslendingar hafa veitt um 3,25 tonn á hvern mann og er það talsvert meira en Norðmenn veiða, eða um 0,45 tonn á mann.

Ísland hefur fest sig í sessi meðal fremstu fiskveiðiþjóða heims og skilar greinin miklum verðmæti inn í íslenska þjóðarbúið. Mat bankans er einnig að staða íslensks sjávarútvegs gagnvart erlendum sjávarútvegi er sterk.

3,25 tonn á mann

Til að mynda þá kemur fram í skýrslunni að Íslendingar hafi veitt 3,25 tonn á hvern mann samanborið við Norðmenn sem að veiddu 0,45 tonn á mann. Ísland situr í 20. sæti yfir stærstu fiskveiðiþjóðir heims með um 1,4% hlutdeild á heimsvísu.

Í spá Greiningu Íslandsbanka kemur einnig fram að þau telja að útflutningur sjávarafurða komi til með að taka við sér á seinni hluta ársins sér í lagi vegna aukinna aflaheimilda á þorski.

Hins vegar telja þau að útflutningur muni dragast saman um 1% árinu en Greining Íslandsbanka reiknar svo með því að að það verði 4% aukning á útflutningi sjávarafurða á næsta ári og 3% aukning þar á eftir.

Þorskurinn langstærstur

„Þorskur er enn langstærstur þegar kemur að aflaverðmæti og nam aflaverðmæti hans tæpum 61 ma.kr. á árinu 2015 eða sem nemur 40,3% af heildarverðmæti aflans. Verðmætaaukning þorsks nam 13% sem er 10 prósentustigum umfram aukningu í magni og hefur því verðmæti á hvert tonn aukist milli ára,“ kemur einnig fram í úttekt Íslandsbanka.

Þorskurinn var jafnframt verðmætasta útflutningstegundin á síðasta ári en þá námu útflutningsverðmæti hans 105 milljörðum króna eða 38% af útflutningsverðmæti sjávarafurða.