Samanburðarskýrsla um fjarskiptanotkun á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum fyrir árið 2014 var nýlega birt á vef Póst- og fjarskiptastofnunar. Þar kemur m.a. fram að Íslendingar bera höfuð og herðar yfir Norðurlandaþjóðirnar í áskriftum að háhraðaneti yfir 30 Mb/s. Á síðasta ári voru 0,26 slíkar áskriftir á hvern íbúa en á eftir Íslandi kemur Svíþjóð með 0,17 áskriftir á hvern íbúa.

Ísland sker sig út að öðru leyti en það er vegna hlutfallslega mikillar símnotkunar í gegnum fastlínukerfi. Á síðasta ári talaði hver Íslendingur að meðaltali í 110 mínútur í gegnum fastlínu en á eftir okkur kemur Svíþjóð með 99 mínútur á hvern íbúa. Til samanburðar talaði hver Íslendingur í 198 mínútur í farsíma á mánuði á síðasta ári. Að meðaltali töluðu Norðurlandaþjóðirnar í 214 mínútur í farsíma á mánuði en þar trónir Finnland á toppnum með 233 mínútur á hvern íbúa.

Heildarfjöldi þeirra mínútna sem fóru frá farsímum á Íslandi síðasta ári nam 783.195 talsins. 36,4% þeirra fór í gegnum farsímakerfi Nova, þar á eftir kemur Síminn með 34,7% og Vodafone með 24,6%. Þetta kemur fram í Tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir árið 2014.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .