Gert er ráð fyrir að mannfjöldi á Íslandi verði 430.545 hinn 1. janúar 2060. Þetta kemur fram í mannfjöldaspá Hagstofu Íslands 2013-2060. Gerð eru þrjú afbrigði af spánni, svokölluð lágspá, miðspá og háspá. Afbrigðin miðast við ólíkar forsendur um fjölda barna á ævi hverrar konu og búferlaflutninga. Gangi þetta eftir mun fólki fjölga hér um 33% á þessum 47 árum.

Í miðspá mannfjöldaspárinnar er gert ráð fyrir að mannfjöldi á Íslandi verði 430.545 hinn 1. janúar 2060. Til samanburðar er mannfjöldi nú 323.810. Í lágspánni verða íbúar 387.597 í lok spátímabilsins en 490.976 samkvæmt háspánni.

Gert er ráð fyrir jákvæðum flutningsjöfnuði, það er að fleiri flytji til landsins en frá því, allt spátímabilið frá þessu ári fram til 2060.

Í miðspá og háspá er gert ráð fyrir náttúrlegri fólksfjölgun út spátímabilið. Með náttúrlegri fólksfjölgun er átt við fleiri fædda en dána. Samkvæmt lágspánni verða dánir hins vegar fleiri en fæddir frá og með árinu 2052. Þá verður fjölgun íbúa eingöngu rakin til jákvæðs flutningsjafnaðar.

Meðalævi mun halda áfram að lengjast bæði hjá körlum og konum. Nýfæddir drengir geta vænst þess að verða 80,8 ára nú en meðalævilengd þeirra verður 86,8 ár í lok spátímabilsins. Nýfæddar stúlkur geta vænst þess nú að verða 83,9 ára en spáð er að sá aldur verði kominn í 88,2 ár í lok spátímabilsins.